Tuesday, September 09, 2008

Hands bang bang bang & guns

Dómur um i8 sýningu janúar 2007 (undir stiganum.)



BJÖRK Viggósdóttir (1982) útskrifaðist með láði ef svo má segja frá Listaháskóla Íslands síðastliðið vor, 2006. Þar vakti lokaverkefni hennar athygli fyrir frumlega myndhugsun og áhugaverða tilraun með þanþol málverksins, hún sýndi nokkra dirfsku með því að setja fram opið og órætt verk sem treysti á áhorfandann. Nýlega var Björk síðan valin til að gera myndbandsverk fyrir Þjóðleikhúsið í sýninguna Bakkynjur. i8 fylgist augljóslega nokkuð með listamönnum af yngri kynslóðinni og Björk hefur án efa staðið undir væntingum forráðamanna gallerísins með innsetningu sinni undir stiganum, minnsta sýningarrými borgarinnar.

Verk Bjarkar nefnist HANDS BANG BANG BANG & GUNS. Hér er vísað til myndbands sem sýnt er á endavegg, en þar er það dansarinn Sigríður Soffía Níelsdóttir sem dansar fingradans, hendur hennar hanskaklæddar skapa síbreytilegan skúlptúr sem birtist og hverfur í samhverfu. Eftirlíking af byssu liggur á gólfi og eitthvað bleikrautt við hlaupið sem gæti minnt á blóm. Kannski er hér vísað til grínbyssu sem blóm sprettur fram úr eða hippauppreisnar þar sem mælt var með blómum í byssukjaftana. Eða hljómsveitarinnar Guns and roses? Hugrenningar sem þessar eru nokkuð einkennandi fyrir verk Bjarkar, hún leyfir verkinu að lifa sínu eigin lífi og treystir á myndræn og hljóðræn áhrif þess, en myndbandinu fylgir hljóðupptaka af rólegu popplagi. Eins og tíðkast nokkuð meðal myndlistarmanna og tónlistarmanna í dag er unnið óhikað innan beggja heima. Ef til vill hafa þau tengsl sem einhvern tíma voru nokkur milli skálda og málara yfirfærst á myndlistarmenn og tónlistarmenn, það er spurning hvar það staðsetur skáldin og rithöfundana? Er kannski að koma tími á sýningu með verkum yngstu kynslóðar myndlistarmanna, skálda, tónlistarmanna og rithöfunda og fá þannig þverskurð af listalífi nýrrar kynslóðar?

Björk tekst að gera ótrúlega mikið úr því litla rými sem hún hefur úr að spila og skapar hér verk sem gætt er þeirri óraunveruleikatilfinningu sem hún leitar eftir og nefnir í sýningarskrá. Samhverfð myndbygging myndbandsins er ef til vill kunnugleg en á móti koma ljóðrænir myndrænir þættir og litanotkun sem er persónuleg og í takt við samtímann. Uppbrot málverksins í myndrænar, þrívíðar einingar sem virkja rýmið í heild hafa verið uppi á teningum um nokkurt skeið, hér tekst Björk á við erfitt rými og skapar á sannfærandi hátt heildarinnsetningu sem nær að fanga áhorfandann, nokkuð vel af sér vikið af ungri og nýútskrifaðri listakonu.

Ragna Sigurðardóttir